Ný gerð af gangbraut á fjórum stöðum

Svona líta gangbrautirnar út.
Svona líta gangbrautirnar út. Teikning/Reykjavíkurborg

Sett verður upp ný tegund af snjallgangbrautum á fjórum stöðum í Reykjavík á næstunni. Þær skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast og kveikja þá á LED-götulýsingu, sem lýsir aðeins upp gangbrautina og vegfarandann á meðan hann fer yfir. Þá kviknar á gangbrautarmerkinu og viðvörunarljósi fyrir bíla.

Gangbrautirnar verða settar upp á Neshaga við Furumel (beint fyrir framan Melaskóla), Rofabæ við Árbæjarskóla, í Seljaskógum við Seljabraut og við Fjallkonuveg við Logafold. 

Áformin, sem fólu einnig í sér víðtækar umbætur á öðrum hefðbundnum gangbrautum, voru samþykkt á fundi borgarráðs í dag. Kostnaðurinn 2020 er sagður nema 190 milljónum.

Umferðaröryggi stefna bæði Sjálfstæðisflokks og meirihluta

Í bókun Sjálfstæðisflokksins er því fagnað að þessi umferðaröryggisaðgerð komi til framkvæmda. „Þá er því sérstaklega fagnað að tillaga Sjálfstæðisflokksins um snjallgangbrautir, sem samþykkt var í borgarstjórn,  komi nú til framkvæmda. Þá er jafnframt ánægjulegt að sjá áform um bætta gangbrautarlýsingu og gönguþveranir víða í borginni, sem eru í samræmi við fyrri tillögur Sjálfstæðisflokks,“ segir í bókuninni.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Stór skref eru nú tekin í umferðaröryggismálum. Verkefnið var sett í flýtimerðferð vegna COVID-19 til að auka fjárfestingu og styðja við atvinnulífið. Um er að ræða snjallgangbrautir, betrumbætur á göngubrautum, betri gönguþveranir og lækkun hámarkshraða.  Það er stefna meirihlutans í Reykjavík að auka snjallvæðingu hvarvetna í kerfum borgarinnar og ánægjulegt að sjá slíka þróun einnig eiga sér stað í umferðaröryggismálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert