Svipað atvinnuleysi og í fyrra

Atvinnuleysi mældist 3,5% í júní samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Þetta er svipað hlutfall og í sama mánuði í fyrra og mun minna en í mánuðinum á undan. Í maí mældist atvinnuleysið 9,9%.

Áætlað er að 217.200 (± 6.200) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í júní 2020 samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands en það jafngildir 83,1% (± 2,4) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 209.500 (± 4.900) hafi verið starfandi en 7.700 (± 2.500) án vinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,2% (± 2,3) og hlutfall atvinnulausra 3,5% (± 1,1).

Mælt atvinnuleysi í júní 2020 lækkaði frá maí þegar það mældist 9,9%. Ef mælingar á atvinnuleysi í júní 2020 eru bornar saman við mælingar í júní frá fyrri árum má sjá að atvinnuleysi nú er svipuð því sem var fyrir ári síðan þegar það var 3,2% en milli áranna 2015 til 2018 var mælt atvinnuleysi í júní á bilinu 2,2 til 3,1%. Mæld atvinnuþátttaka í júní 2020 var heldur lægri en hefur verið síðustu ár í júní og sérstaklega hjá ungu fólki á aldrinum 16 – 24 ára. Þess ber þó að gæta að hlutfall atvinnuþátttöku er enn hátt meðal ungs fólks eða 91,3%. Til samanburðar var atvinnuþátta ungs fólks 94,3% í júní 2019 og 92,7% í júní 2018.

Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum var fjöldi atvinnulausra í júní 8.300 eða um 4,1% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,1% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 75,5%. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka jókst um hálft prósentustig og hlutfall starfandi hækkaði um 2,7 prósentustig borið saman við maí 2020. Árstíðarleiðréttur meðalfjöldi unninna stunda í júní var 36,9 sem er hækkun um 0,2 stundir frá maí.

Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis síðustu 6 mánaða hækkaði úr 3,7% í janúar 2020 í 4,5% í júní. Leitni hlutfalls starfandi hækkaði um 1 prósentustig milli mánaða og er nú 0,3 prósentustigum hærri en hún var í janúar á þessu ári.

„Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða bráðabirgðatölur sem verða endurskoðaðar þegar ársfjórðungi lýkur. Vísbendingar eru um brottfallsskekkju í niðurstöðunum sem lýsa sér í því að einstaklingar sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur í júní voru ólíklegri til að svara spurningalista rannsóknarinnar heldur en þeir sem ekki fengu greiddar þess háttar bætur. Þetta kann að leiða til vanmats á atvinnuleysi fyrir júnímánuð,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert