Kæru vegna „rafmengunar“ vísað frá

Félagið og einstaklingarnir kærðu úthlutun tíðniheimilda til fjarskiptafyrirtækja vegna 5G-senda.
Félagið og einstaklingarnir kærðu úthlutun tíðniheimilda til fjarskiptafyrirtækja vegna 5G-senda. AFP

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur vísað frá kæru á hendur Póst- og fjarskiptastofnun vegna úthlutunar tíðniheimilda fyrir 5G-senda. Kærendur voru Geislabjörg, félag fólks um frelsi frá rafmengun, og fjórir ónafngreindir einstaklingar sem kröfðust þess að ákvarðanirnar yrðu felldar úr gildi.

Póst- og fjarskiptastofnun krafðist frávísunar á þeim forsendum að kærendur væru ekki aðilar að málinu enda ættu þeir ekki beinna lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls. Kærendur höfnuðu því. Um væri að ræða álitaefni á sviði umhverfisréttar og ljóst að heilsufarsáhrif falli þar undir. Forsvarsmenn hópsins byggja einmitt kæruna á meintum umhverfisáhrifum 5G-bylgna en í úrskurðinum kemur fram að einn kærenda hafi flutt úr höfuðborginni árið 2010 í því skyni að forðast mikla rafmengun. Töldu kærendur sig því vera að verja eigin hagsmuni, sem og hagsmuni barna sinna og barnabarna.

Þeim málatilbúnaði hafnaði úrskurðarnefndin og var kærunni því vísað frá en málskostnaður að fjárhæð 815.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert