Tryggja þarf sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða betur og mun Seðlabankinn kalla eftir lagabreytingum þess efnis. Þá þurfi fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) auknar heimildir til inngripa til að fylgja þeim lögum. Þetta er meðal þess sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir við Fréttablaðið í dag.
Er tilefnið tilmæli stjórnar VR í yfirlýsingu vegna kjarabaráttu flugfreyja og Icelandair. Þar beindi stjórnin því til stjórnarmanna lífeyrissjóðs LIVE að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Hafði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, einnig vísað til þess að hægt væri að skipta stjórnarmönnum út sem ekki færu að þessum tilmælum. Eftir að Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands sömdu voru tilmælin dregin til baka.
Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Ásgeiri að uppákomur sem þessar séu ekki nýjar. Stjórnmálamenn, atvinnurekendur og stéttarfélög hafi öll reynt að nýta lífeyrissjóðina og passa þurfi upp á að stjórnir þeirra séu sjálfstæðar og ákvarðanir séu teknar með hagsmuni sjóðsfélaga í huga. Segir Ásgeir jafnframt að eftir hrunið hafi verið tekið hart á skuggastjórnun innan bankakerfisins. Lífeyriskerfið hafi hins vegar setið eftir.
Í kjölfar ummæla Ragnar sagði Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, að fylgst væri með framgöngu verkalýðsforystunnur vegna aðkomu LIVE að málefnum Icelandair. Kölluðu bæði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, jafnframt eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki til skoðunar orð Ragnars Þórs. Kvörtuðu Samtök atvinnulífsins svo formlega yfir afskiptum VR.
Þegar VR dró tilmæli sín til stjórnarmanna LIVE til baka sagði Ragnar að skrif hans og ummæli hefðu verið í nafni stöðu félagsmanna VR, þó álykta hafi mátt að skrifin tengdust baráttu annarra stétta. Þá sagði hann að öll verkalýðshreyfingin og sérstaklega félög innan ASÍ hafi farið mjög harkalega fram, sameinuð, þegar samningsréttinum hafi verið ógnað.
Höfðu einhverjir starfsmenn VR hjá Icelandair komið fram í fjölmiðlum og lýst óánægju sinni með aðgerðir VR í málefnum félagsins. Sagði Ragnar þá að vilji VR væri að bjarga félaginu með öllum ráðum. Hann hefði samt miklar efasemdir um að núverandi stjórn félagsins gæti það. Sagði hann að tilmælin um sniðgöngu útboðsins væru dregin til baka „ekki vegna þess að það samdist við flugfreyjur og ekki vegna þess að samningsrétti og framtíð stéttarfélaga var bjargað fyrir horn heldur vegna þess að við erum í vinnu fyrir ykkur en ekki öfugt.“