Hallamælingar við Næfurholt við Heklu sýna að þrýstingsauki sem byrjaði eftir gos í Heklu árið 2000 heldur áfram og telja vísindamenn hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að þrýstingur kviku undir Heklu sé núna umtalsvert hærri en hann var á undan gosunum 1991 og 2000.
Mælingarnar eru tilefni til að minna á að mælanlegur aðdragandi Heklugosa er yfirleitt stuttur, talsvert styttri en algengt er hjá öðrum eldstöðvum, að því er fram kemur á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
„Ekki er hægt að tryggja það að viðvaranir um yfirvofandi eldgos berist í tæka tíð fyrir ferðafólk að forða sér í öruggt skjól. Hér er þess einnig að gæta að gos í Heklu byrja oft með öflugu gjóskugosi. Hópur óviðbúins göngufólks á fjallinu hefur mjög takmarkaða möguleika til að bjarga sér.“
Nýverið fór hópur vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólanum í Gautaborg til hallamælinga við Næfurholt við Heklu. Í hópnum voru Erik Sturkell, Ásta Rut Hjartardóttir, Rikke Pedersen og Cécile Ducrocq.
Mælingar hafa verið gerðar á hallamælilínu við Næfurholt í hálfa öld og sýna mælingarnar einkar vel hegðun Heklu og þrýstingsbreytingar í kvikukerfi hennar.
„Milli eldgosa vex landhallinn við Næfurholt, upp til austurs, sem stafar af landris umhverfis Heklu. Landrisið stafar af þrýstingsaukningu undir fjallinu, virðist vera á 10-15 km dýpi. Í gosunum 1991 og 2000 minnkaði þrýstingur, hins vegar, og landið seig“, segir á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.