Uppruni tveggja innanlandssmita kórónuveirunnar, sem greindust á fimmtudag, er enn óljós. Smitrakningu lauk í gær en á fimmta tug fólks eru komnir í sóttkví.
Annar hinna smituðu er karlmaður á þrítugsaldri, sem tók þátt í frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um síðustu helgi. Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, upplýsingafulltrúa almannavarna, hafa á fjórða tug manna verið settir í sóttkví vegna þess smits en til viðbótar hefur verið haft samband við stóran hóp fólks, sem ráðlagt er að fara sér hægt næstu daga. Þar sem uppruni smitins liggur ekki fyrir er þó ekki vitað hvort viðkomandi greindist fyrir, eftir eða jafnvel á mótinu.
Hinn sem smitaðist er á fertugsaldri en innan við tíu hafa verið settir í sóttkví vegna þess smits. Áður hefur komið fram að talið sé líklegt að það smit megi rekja til fólks sem kom hingað til lands að utan. Einstaklingarnir tveir hafa engu að síður ekki verið í útlöndum nýlega og því smitast hér á landi.
Alls eru nú 11 virk smit á landinu, en 108 í sóttkví.