Vel er tekið á móti mér á heimili Baltasars og Kristjönu Samper í Kópavogi. Tilefni heimsóknar minnar er ný myndlistarsýning Baltasars og dóttur hans, Mireyu, sem opnuð verður 1. ágúst í Hlöðunni á Litla-Kambi á Snæfellsnesi. Er þetta í fyrsta sinn sem feðginin sýna saman.
Ég er leiddur niður í vinnustofu Baltasars þar sem mikilfengleg málverk blasa við mér. Stórar og drungalegar myndir af kerlingum fyrri tíma en einnig af fljúgandi verum; örn á einni, skuggar fugla á annarri.
Frá vinnustofunni er útgengt í garð heimilisins. „Við vorum með hest hérna hjá okkur sem beit grasið,“ segir Baltasar mér. „Hesturinn virkar miklu betur en sláttuvél á þessa hóla og hæðir sem við erum með.“
Mireya er með okkur Kristjönu og Baltasar og hún segir frá því hvernig verk hennar ríma við verkin sem hér eru.
„Innsetningar, sambland af pappírsverkum og skartskúlptúr. Þau eru öll mjög hvít og í kontrast við það sem pabbi er að gera, þar sem ég er að vinna með ljósið og svona,“ segir hún.
„Það er ár síðan þessi hugmynd kom upp. Þá voru ákveðin verk sem ég var að vinna að og hefði viljað sýna þarna en þau festust í Tókýó út af Covid. Þegar pabbi var byrjaður að mála og ég sá hvert hann var að fara endurhugsaði ég minn part,“ segir Mireya en verk Baltasars hafa sterka skírskotun í íslenskar þjóðsögur um kvenskörunga og vættir.
„Þegar ég sá að pabbi var að gera þessi málverk með kerlingunum fannst mér tilvalið að gera skart sem tengist þeim,“ segir Mireya en skartið vinnur hún með Sigurði Inga Bjarnasyni gullsmiði í verslunni Sign. „Svo geri ég innsetningu út frá skartinu.“
Á síðasta ári sótti Mireya sýningu 72 listamanna Akademíu skynjunarinnar á Snæfellsnesi, m.a. í Hlöðunni á Litla-Kambi og fannst byggingin heillandi. „Þetta er nýtt rými, gömul hlaða sem er nýbúið að gera upp,“ segir Mireya en hún spjallaði þar við Baldvinu Sverrisdóttur listfræðing, sem stakk upp á því að Mireya og Baltasar settu upp sýningu saman. „Hún vildi fá okkur bæði til að sýna og þá hugsuðum við: „Af hverju ekki? Þetta er góð hugmynd.““
Baltasar Samper fæddist árið 1938 á Spáni og nam við Listaháskólann í Barcelona áður en hann hélt í heimsreisu til að kynna sér listasöfn og stunda rannsóknir. Hann kom við hér á Íslandi 1961 og heillaðist af landi og þjóð. Hingað kom hann aftur stuttu seinna, kynntist eiginkonu sinni, Kristjönu, og hefur búið hér samfellt frá 1963, í 57 ár. Baltasar er afkastamikill listamaður, hefur haldið tugi einkasýninga, og sýningar með Kristjönu víða. Hann er þekktastur fyrir sínar stóru veggmyndir, þar má nefna veggskreytingu í Flateyjarkirkju og fresku í Víðistaðakirkju.
„Það sem hefur áhrif á það sem ég geri er bitran sem Ísland hefur og enginn annar staður,“ segir Baltasar. „Þessi lága sól og þessir skuggar sem teygjast og teygjast. Um leið og ég kom hingað hugsaði ég: „Vá, hér er hægt að vinna.““
Mireya er elst barna Kristjönu og Baltasars, fædd 1964. „Það var eitt sem ég vissi, það var alveg á hreinu, að ég ætlaði ekki að verða myndlistarkona,“ segir hún spurð hvort hún hafi viljað feta í fótspor foreldra sinna. „Þannig að ég fór á stærð- og náttúrufræðibraut í menntaskóla og gerði allt sem ég gat til að komast frá þessu. Svo fattaði ég að ég var á flótta. Þá verður maður bara að gefast upp,“ segir Mireya og hlær. Hún hefur, eins og faðir hennar, sýnt víða um heim. Mikið í Japan, til að mynda.
Öll börn Baltasars og Kristjönu hafa fetað listaveginn. „Ég kalla þetta vírus,“ segir Mireya. „Það var engin leið út úr þessu.“
<strong>Viðtalið í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.</strong>