„Áhersla okkar í bandaríska sendiráðinu á Íslandi er áfram sú sama og hún hefur ávallt verið – það er að styrkja tvíhliða samband Bandaríkjanna og Íslands sem er til hagsbóta fyrir okkar frábæru þjóðir,“ segir Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í svari til mbl.is.
„Það er mér mikill heiður að leiða okkar teymi á þessum farsæla tímabili gagnkvæmrar velþóknunar og virðingar milli Bandaríkjanna og Íslands,“ bætir hann við í svari við fyrirspurn mbl.is sem laut að umfjöllun CBS News um sendiherrann.
Í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að Gunter hefði verið „vænisjúkur“ um öryggi sitt síðan hann var skipaður sendiherra hér á landi á síðasta ári og að hann hafi meðal annars óskað eftir því að utanríkisráðuneyti Bandríkjanna að sér yrði útvegað sérstakt leyfi til að bera skotvopn hér á landi.
Í fyrirspurn mbl.is til sendiherrans og bandaríska sendiráðsins var meðal annars spurt hvort umfjöllun CBS News væri efnislega rétt, hvort að sendiherrann upplifi að hann sé öruggur hér á landi og hvort að honum hefði borist hótanir vegna stöðu sinnar sem sendiherra á Íslandi.
Sendiráð Bandaríkjanna sagði í aðskildu svari við fyrirspurn mbl.is að það væri almenn stefna bandarískra stjórnvalda að tjá sig ekki um sérstök öryggismál sem snúa að sendiráðum eða starfsfólki.