Unga parið sem björgunarsveitir leituðu í nótt á Hornströndum ákvað að halda ferð sinni áfram. Hópur björgunarsveitarfólks sem gekk frá Fljótavík í Hlöðuvík í nótt fann parið í tjaldi í Hlöðuvík, en þau óskuðu eftir aðstoð seint í gærkvöldi þar sem svartaþoka var á gönguleiðinni.
Fólkið var ágætlega á sig komið, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
„Þau voru brött og höfðu náð að bjarga sér sjálf, en höfðu ekki aðstæður til að láta vita af því,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.
Björgunarbáturinn Gísli Jóns lagði af stað frá Ísafirði um miðnætti í gærkvöldi með fólk til leitarinnar, en alls leituðu níu björgunarsveitarmenn parsins.