Foreldrar beðnir um að ræða við börn sín

mbl.is/​Hari

Nokkrar tilkynningar bárust til lögreglunnar í gærkvöldi um unglinga að aka ógætilega á vespum við Breiðholtsskóla.

Svipaðar tilkynningar hafa verið að koma mjög reglulega inn á borð hjá lögreglu síðustu daga og vill lögregla brýna fyrir foreldrum að ræða við börn sín um að fara varlega á vespum eða sambærilegum ökutækjum.

Frá 17 í gær til 5 í morgun sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 51 máli og fjórir voru vistaðir í fangageymslu.

Ökumaður bifreiðar var handtekinn skömmu fyrir kvöldmat í gær og er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka próflaus. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Um svipað leyti óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu. Hann var með tvo farþega sem neituðu að borga fyrir farið. Seinna um kvöldið óskaði annar leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu sökum sama aðila sem neitaði að borga fyrir farið með leigubifreið. Viðkomandi var í framhaldinu vistaður í fangageymslu.

Nokkru síðar var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann er einnig grunaður um fíkniefnamisferli. Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Lögreglu og sjúkraliði barst tilkynning um umferðaróhapp í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. Þar varð tveggja bíla árekstur og þurfti að draga báða bílana á brott með dráttarbifreið. Einn var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið.

Jafnframt varð tveggja bíla umferðaróhapp á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Draga þurfti báða bílana á brott með dráttarbíl en engin slys urðu á fólki.

Skömmu eftir miðnætti var einn einstaklingur handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli og er hann vistaður í fangageymslu.

Lögreglan handtók mann um þrjú í nótt fyrir að láta ófriðlega fyrir utan bráðamóttökuna í Fossvogi. Sá er einnig grunaður um eignaspjöll. Maðurinn var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu en hann var látinn laus eftir samtal við lögreglu.

Nú fyrir skömmu var aðili handtekinn grunaður um ölvun við akstur, sá er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka próflaus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert