Endurgerð Nýlendugötu í Reykjavík, milli Norðurstígs og Ægisgötu, hófst í sumarbyrjun. Byggðin milli Vesturgötu og Geirsgötu er umlukt byggingum á alla vegu og þeir eru eflaust margir sem ekki hafa lagt þangað leið sína.
„Þarna er eins konar leynistígur þar sem kúra falleg hús með mikinn karakter og sögu,“ segir í frétt á reykjavik.is. Nýlendugatan heldur síðan áfram frá Ægisgötu að Seljavegi og þann spotta götunnar þekkja flestir.
Eins og oft gerist þegar framkvæmt er í eldri hverfum kemur ýmislegt í ljós þegar farið er að grafa undir yfirborð, segir á reykjavik.is.
Fornleifafræðingar voru kallaðir til í upphafi til að kanna mannvistarleifar. Við uppgröftinn fundust fornleifar; gamall beituskúr, undirstöður undir Hlíðarhús og aðrar mannvistarleifar, líklega um tvö hundruð ára gamlar. Búið er að teikna þær upp og merkja og fornleifafræðingar hafa nú lokið störfum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.