„Ég hefði kosið að við gengjum lengra“

Kári Stefánsson segir ástandið ógnvekjandi og hefði viljað takmarka samkomur …
Kári Stefánsson segir ástandið ógnvekjandi og hefði viljað takmarka samkomur við 20 manns. Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ástandið í íslensku samfélagi með tilliti til hópsýkinga kórónuveiru sem komið hafa upp nýverið „ógnvekjandi“. Hefði hann fengið að ráða hefði verið gengið lengra í hertum aðgerðum og fleiri stöðum hefði verið lokað.

„Sóttvarnalæknir hefur reynst vera mjög farsæll í sínu starfi upp á síðkastið og hefur án nokkurs vafa haft rétt fyrir sér á mörgum ögurstundum í þessum faraldri. En ég persónulega ef ég hefði verið í hans sporum – og það er kannski gæfa þessarar þjóðar að svo er ekki – þá hefði ég gengið lengra,“ segir hann í samtali við mbl.is og útskýrir hvers vegna.

Skíthræddur um að veiran sé mjög útbreidd

„Mér finnst ástandið ógnvekjandi. Við erum með að minnsta kosti sjö aðila í samfélaginu sem hafa smitast af veiru með sama mynstri stökkbreytinga sem bendir til þess að þeir hafi smitast af veiru úr sama brunni – og við höfum ekki hugmynd um það hvernig þeir tengjast.“

„Það þýðir að öllum líkindum að þeir tengjast í gegnum aðra aðila í samfélaginu sem hafa smitast og ég er skíthræddur um að veiran sé komin mjög víða. Ég er kannski dálítil huglaus rola en ég hefði viljað ganga lengra í þessum varnaðaraðgerðum,“ bætir Kári við.

Starfsemi ekki bönnuð heldur lagt til að hlé verði gert

Hertar aðgerðir vegna þeirra hópsýkinga sem hafa komið upp hér á landi síðustu daga voru kynntar á blaðamannafundi fyrr í dag eftir að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafði kynnt tillögur sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi.

Meðal tillagna sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra samþykkti var að fjöldatakmörk miðist við 100 manns og að gestir veitingastaða geti haft 2 metra bil á milli sín.

Þá er það lagt til af sóttvarnalækni að íþróttastarf, þ.á m. á líkamsræktarstöðvum geri hlé á starfsemi sinni en hún ekki bönnuð. Skemmti- og vínveitingastaðir mega áfram afgreiða til 23 á kvöldin. Kára finnst ekki nógu langt gengið hvað þetta varðar.

Hefði takmarkað samkomur við 20 manns

„Ég hefði viljað loka vínveitingastöðum enda erum við að fara inn í helgi þar sem Íslendingar hafa gjarnan verið mjög duglegir við drykkju. Ég hefði viljað loka vínveitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum. Þá hefði ég viljað takmarka samkomur við 20 manns,“ segir hann en gerir fyrirvara:

„En taktu eftir að hér talar maður sem er „amateur“ á þessu sviði og Þórólfur er sérfræðingur á þessu sviði og hefur reynst mjög farsæll í sínu starfi. En mér finnst þetta tiltölulega lítið og ég hefði kosið að við gengjum lengra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert