Fjöldatakmörkun vegna kórónuveirunnar miðast núna við 100 einstaklinga, auk þess sem tveggja metra reglan verður viðhöfð þar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi.
Tveggja metra reglan verður ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundi.
Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna verður krafist notkunar andlitsgríma. Þetta á fyrst og fremst við um almenningssamgöngur.
Breytingarnar taka gildi frá og með hádegi á morgun.
Tvöföld sýnataka verður við landamærin, bæði við komu og síðan á degi fjögur til sex ef fyrra sýnið reynist neikvætt.
„Við erum að grípa mjög ákveðið í handbremsuna,“ sagði Svandís og bætti við að ríkisstjórnin og heilbrigðisyfirvöld þurfi daga og mögulega vikur til að átta sig á stöðunni.
Áður en Svandís hóf mál sitt greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frá því að 39 staðfest smit séu í samfélaginu, sem þýðir að 10 hafi bæst við í rannsóknum í gær.
215 manns eru í sóttkví og fleiri munu bætast við.
„Það þarf að grípa til mjög afgerandi aðgerða,“ sagði hún.
Katrín bætti síðar við að Íslendingar hafi staðið sig mjög vel í því að takast á við kórónuveiruna.
„Við eigum verkfærakistuna sem þarf. Nú þurfum við að opna þá kistu aftur og grípa til kunnuglegra aðgerða sem við þekkjum öll,“ sagði hún og kvaðst átta sig á því að margir verði vonsviknir yfir þessari þróun mála.
Hún sagði stöðuna alvarlega og að allir hafi þungar áhyggjur af henni en að hægt sé að ná tökum á henni.