Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjölgun kórónuveirusmita undanfarna daga sé ákveðin vonbrigði en bendir á að þetta hafi ekki verið óviðbúið. Ellefu kórónuveirusmit voru staðfest innanlands í gær en alls eru 50 í einangrun með virkt smit hér á landi.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna, en hertar aðgerðir vegna kórónuveiru tóku gildi á hádegi í dag. Þórólfur hvetur alla til að viðhafa einstaklingsbundnar sýkingarvarnir og þá sem eru með einkenni að halda sig heima og fá sýnatöku.
Þórólfur sagði að hægt hefði verið að koma í veg fyrir frekara smit innanlands vegna einnar hópsýkingar sem er í gangi hér á landi ef einstaklingur hefði verið í sýnatöku tvö eftir komu til landsins.
Hin hópsýkingin, sem er stærri og víðtækari, er órekjanleg og segir Þórólfur það áhyggjuefni. Því ekki hægt að fullyrða að sýnataka tvö hefði komið í veg fyrir þá hópsýkingu.
Þórólfur sagði tengsl ekki ljós og því gæti útbreiðsla veirunnar verið meiri en nú er vitað.
Sóttvarnalæknir hamraði á því að fólk sinnti einstaklingsbundnum sóttvörnum og sagði alla hafa slakað of mikið á undanfarið. Nú þyrfti að taka sig á í þeim málum.