Hert og slakað næstu mánuðina eða árin

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma D. Möller, landlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma D. Möller, landlæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir Íslendinga mega búast við því að þurfa að lifa með hörðum aðgerðum í sambland við tilslakanir næstu mánuði og jafnvel árin er hann er spurður út í áætlun stjórnvalda til lengri tíma.

„Ég held að planið sé alveg ljóst. Ef það er ekki ljóst þá hefur okkur eitthvað mistekist í því að koma skilaboðunum á framfæri. Ég hef sagt að við þurfum að læra að lifa með þessari veiru. Við getum ekki útrýmt þessri veiru á meðan hún er enn á fullu fjöri í heiminum og það eru fleiri tilfelli sem eru að greinast í dag í heiminum öllum en nokkru sinni fyrr,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Hann segir verkfærin í baráttunni við veiruna vera þau sömu.

Hér yrðu mallandi smit

„Við viljum ekki að veiran nái sér hér á strik í íslensku samfélagi með tilheyrandi afleiðingum fyrir þá einstaklinga sem sýkjast og fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið allt. Ef við ætlum að halda þessari veiru í skefjum og hlutum gangandi þá þurfum við í mínum huga að nota þessar aðferðir sem við höfum verið að nota; að grípa til harðra aðgerða þegar sýnt er að veiran er komin af stað og slaka á þeim þegar sýnt er að við höfum náð tökum á henni,“ sagði Þórólfur og bætti við:

„Ég held að við munum þurfa að búa við þannig umhverfi næstu mánuðina ef ekki árin, hvenær svo sem nýtt bóluefni kemur, en það er bara ekkert ljóst á þessari stundu,“ sagði Þórólfur.

Undir þessi orð tók Alma D. Möller landlæknir.

„Við höfum alltaf séð fyrir okkur að hér yrðu mallandi smit. Akkúrat núna finnst okkur þau óþægilega mörg. Við höfum ekki alveg stjórnina og þess vegna þarf að grípa til þessara aðgerða. Það er alveg rétt að við sjáum fyrir okkur að á meðan veiran er með okkur þurfum við örugglega að vera að herða og slaka til skiptis,“ sagði Alme Möller.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert