Lögreglan kom konu til aðstoðar á Seltjarnarnesi um fimm í morgun en hún hafði hafði læst sig inni á baðherbergi og sat þar föst.
Lögregla skreið inn um glugga að baðherbergi hennar og tókst að lyfta henni upp og út um gluggann. Konan var frelsinu fegin, sér í lagi þar sem hún komst tímanlega í flug. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi kom lögregla ölvuðum manni í austurborginni til aðstoðar. Maðurinn brást illa við aðstoð lögreglu og hrækti hann í andlit lögregluþjóns og sparkaði í annan. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna ástands hans og hegðunar. Maðurinn lét mjög ófriðlega í vörslu lögreglu og tókst honum að hrækja í andlit tveggja lögregluþjóna til viðbótar.
Brotist var inn í grunnskóla í austurborginni um áttaleytið. Lögregla fór á vettvang og er málið í rannsókn.