Vegna fjölgunar nýrra innlendra smita hefur Ísland hækkað mjög á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu yfir þau ríki sem eru með flest smit á hverja 100 þúsund íbúa. Af Norðurlöndunum er Svíþjóð eina landið sem er hlutfallslega með fleiri smit en Ísland.
Miðað er við tölur frá því í gær en samkvæmt listanum eru 15,4 kórónuveirusmit á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi en 30,7 í Svíþjóð. Í Danmörku eru smitin 10,6, Finnlandi 2,3 og 3,6 í Noregi.
Lönd heims nota mörg hver tölur frá Sóttvarnastofnun Evrópu um svokallað nýgengi, þ.e. fjölda nýrra tilfella síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, til að ákveða fyrir hvaða ríkjum á að opna landamæri sín. Þannig vakti athygli þegar Lettar gerðu það að skilyrði að Íslendingar þyrftu að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landins, en sú regla var sett á ferðamenn frá öllum ríkjum (sem á annað borð mega koma til landsins) þar sem hlutfallið var yfir 16.
Lúxemborg sker sig nokkuð úr á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu með 209,5 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Mögulega er annarri aðferð beitt við útreikninga þar líkt og var áður á Íslandi þar sem talin voru með virk sem og óvirk ný smit sem greindust á landamærunum.
Á Spáni er hlutfallið 60,2, Rúmeníu 79,4, Búlgaríu 45,7 og 44,4 í Belgíu.
Listi Sóttvarnastofnunar Evrópu frá 2. ágúst.