Til greina kemur að grípa til harðari aðgerða en hefur verið gripið til til þessa bendi spár væntanlegs spálíkans til þess að faraldurinn verði í miklum vexti. Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarna í dag þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma D. Möller landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sátu fyrir svörum.
Þórólfur hefur boðað Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, og hans teymi til fundar næstkomandi miðvikudag til þess að ræða spálíkanið sem teymið útbjó í fyrstu bylgju faraldursins. Í samtali við mbl.is gerir Thor gerir þó ekki ráð fyrir að það verði birtingarhæft fyrr en eftir í fyrsta lagi fimm daga.
Á blaðamannafundi almannavarna í dag var Þórólfur spurður út í það hvort hann gæti hugsað sér að byggja á spálíkaninu hvað sóttvarnaaðgerðir varðar.
„Það gæti vel verið já. Við erum búin að boða fund með þeim núna í vikunni til þess að fara aðeins yfir þetta aftur og sjá hvort við getum notað sömu módelsmíð núna og við gerðum þá sem gafst bara mjög vel og sagði mjög vel fyrir um aðstæður,“ sagði Þórólfur.
„Ég held að það borgi sig ekki að segja of margt fyrifram og held að við þurfum aðeins að sjá hver niðurstaðan er en það gæti alveg komið til greina ef módelið virkar túverðugt að það verði gripið til annars konar aðgerða en hefur verið gripið til til þessa,“ segir Þórólfur.
Víðir Reynisson segir að sama gildi um neyðarstig almannavarna, þ.e. hvort viðbragðsstigi almannavarna verði breytt.
„En það hefur líka verið margoft bent á það að lykilatriði í þessu snýst kannski ekkert endilega um hörðustu aðgerðirnar heldur um viðbrögð fólks við aðgerðunum,“ sagði Víðir og vísaði til einstaklingsbundinna smitvarna.