Erfitt að halda tveggja metra reglu í Leifsstöð

Mynd frá Leifsstöð.
Mynd frá Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Myndir úr Leifsstöð hafa sýnt að þar sé erfitt að halda tveggja metra reglunni í hávegum, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Ferðamannastraumurinn virðist bara aukast en yfir 2.000 sýni hafa verið tekin daglega í landamæraskimun síðustu tvo daga og er fjöldi sýna þannig orðinn meiri en veirufræðideild Landspítalans hefur gefið út að deildin geti ráðið við.

„Myndir úr Leifsstöð hafa sýnt að það er erfitt [að halda tveggja metra reglunni] þar. Við höfum áhyggjur af því, rétt eins og við höfum áhyggjur af fólki alls staðar þar sem það er í þrengslum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Það eru náttúrulega þeir aðilar sem sjá um Leifsstöð eiga að bera ábyrgð á því að tveggja metra reglan sé virt eða þá að fólk beri grímur á meðan þessum þrengslum stendur.“

Leita leiða til að stýra fjölda ferðamanna

Á upplýsingafundi almannavarna í dag kom fram að yfirvöld væru nú að leita leiða til að stýra þeim fjölda ferðamanna sem til landsins koma. Útfærsla á því er í höndum samgönguráðuneytisins en þegar stjórnvöld leituðu síðast leiða til þess að halda fjölda ferðamanna sem hingað koma og þurfa skimun undir 2.000 þá virtist það nokkuð flókið og gripu stjórnvöld fremur til þess að hætta að skima fjórar þjóðir til viðbótar við þær tvær þjóðir sem þegar voru undanskildar skimun, Grænlendinga og Færeyinga. Þjóðirnar sem bættust við og urðu undanskildar skimun voru Danir, Þjóðverjar, Norðmenn og Finnar.

Þurfa hugsanlega að skima Dani og Þjóðverja aftur

Á fundinum var Þórólfur spurður hvort ekki þyrfti að grípa aftur til skimana á þeim Dönum og Þjóðverjum sem hingað koma þar sem kórónuveirusmit eru að færast í aukana í Danmörku og Þýskalandi.

„Við erum ekki að skima þá sem hafa verið í Danmörku á síðastliðnum 14 dögum, þeir eru að fara upp eins og við og líka Þjóðverjar og það kann vel að vera að við þurfum að breyta því, taka þau af örugga listanum hugsanlega og hefja skimanir. Það mun þá breyta í mínum huga þeim fjölda sem við getum tekið á móti,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Tækjakostur veirufræðideildarinnar er takmarkaður en tæki sem munu auka greiningargetu hennar eru á leið til landsins og munu þau líklega koma hingað í október.

„Við erum með takmarkaða getu hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við þurfum bara að lifa við það og aðlaga okkur eins vel og við getum að því,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert