Útflutningsgreinar líða fyrir samdrátt erlendis

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. mbl.is/Hari

Efnahagssamdrátturinn í Bandaríkjunum og í Evrópu á öðrum ársfjórðungi sem nýlega var tilkynnt um hefur mest áhrif á útflutningsgreinarnar hér á landi, þar á meðal álfyrirtæki.

Þetta segir Gylfi Magnússon, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Landsframleiðsla á evrusvæðinu dróst saman um 12,1 prósent og samdrátturinn í Bandaríkjunum var sá versti frá upphafi mælinga þar í landið árið 1947. Landsframleiðslan þar er sögð hafa dregist saman um 32,9% á ársgrundvelli frá sama fjórðungi í fyrra. Samdrátturinn er nær alfarið rakinn til kórónuveirunnar. 

Að sögn Gylfa eru tölurnar nokkurn veginn eins og spáð hafði verið. „Þær eru mjög slæmar en ekki verri en búist var við.“

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Áhrif á Marel og álfyrirtæki 

Spurður út í áhrifin hér á landi segir hann: „Þetta smitast hingað, fyrst og fremst í gegnum útflutningsgeirana okkar. Þeir líða fyrir samdrátt í nágrannalöndunum,“ segir Gylfi, sem tekur fram að ferðaþjónustan sé að vísu í sérflokki í þessu samhengi. Þar hafi efnahagsástandið áhrif auk beinna áhrifa af völdum kórónuveirunnar á ferðalög fólks.

Minna er keypt af ýmsum vörum og sjást áhrifin til dæmis í álverði. „Þetta hefur áhrif á álverin og orkufyrirtækin en aðrar greinar verða fyrir svipuðum áhrifum. Það er mismunandi eftir því hvað verið er að selja,“ greinir hann frá.

Marel hlýtur að finna fyrir samdrættinum, að sögn Gylfa.
Marel hlýtur að finna fyrir samdrættinum, að sögn Gylfa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann telur að rétt eins og álfyrirtækin hljóti fyrirtæki á borð við Marel að finna fyrir samdrættinum. Fjárfestingar fyrirtækja sem nýta vörur þaðan hljóti að vera í einhverju uppnámi í ljósi stöðunnar.

Ferðaþjónustan setur ný viðmið

Spurður hversu mikil áhrif þetta hafi hér á landi segir Gylfi að við eðlilegar aðstæður myndi þessi samdráttur erlendis teljast þungt högg „en það má kannski segja að ástandið í ferðaþjónustunni setur ný viðmið fyrir það hvað telst þungt högg“.

Hvað varðar framhaldið segir hann mjög erfitt að spá fyrir um þróun efnahagslífsins vegna þess hve faraldurinn er ófyrirsjáanlegur.

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert