Rannsóknir hafa sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólki smiti og/eða smitist af COVID-19 vegna þess að sýkingar af veirunni SARS-CoV-2 dreifist fyrst og fremst með dropa- eða snertismiti.
Þetta kemur fram í svari við spurningu á Vísindavefnum þar sem spurt er hvort rannsóknir hafi sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smitist af COVID-19. Það er Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalnum, sem svarar.
„Þegar við hóstum, hnerrum og tölum berst aragrúi örsmárra dropa frá öndunarfærunum. Ef einstaklingur er sýktur af SARS-CoV-2 eru þessir dropar gjarnan hlaðnir veirum. Droparnir berast síðan mislangt áfram og geta lent í munni annarra, höndum eða á yfirborði hluta í næsta nágrenni. Stærð dropa og hversu langt þeir ferðast er ýmsu háð. Til dæmis þeytast fleiri dropar og lengra þegar við hnerrum og hóstum en þegar við tölum,“ segir í svarinu á Vísindavefnum.
Grímur grípi yfirgnæfandi meirihluta dropa frá öndunarfærum og varni því að þeir berist lengra. Það þýðir að grímur geta bæði stöðvað dropa sem við gefum frá okkur og dropa sem berist til okkar frá vitum annarra.
Enn fremur segir að ýmsar ástæður séu fyrir því hvers vegna fólki er þá ekki alltaf ráðlagt að vera með grímu nú þegar kórónuveirufaraldurinn geisar. Nota þurfi grímur á réttan hátt til að árangur náist:
Nýjar ráðleggingar um notkun gríma í samfélaginu miða við að þær séu notaðar þar sem hætta er á smiti, einkum þar sem tímabundið þarf að víkja frá tveggja metra reglunni, segir í svarinu sem má lesa hér.