Leita Arnarins sem boltaður var niður nýverið

Örninn, listaverk eftir Grétar Reynisson, hefur verið á grasbletti milli …
Örninn, listaverk eftir Grétar Reynisson, hefur verið á grasbletti milli Fagradalsbrautar og Landsbankans. Ljósmynd/Aðsend

Tréskúlptúrinn Örninn er horfinn af stalli sínum við Landsbankann á Egilsstöðum öðru sinni á skömmum tíma. Búið er að kæra verknaðinn til lögreglu.

Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri Fljótsdalshéraðs, segir í samtali við mbl.is að fyrst hafi orðið vart við að Örninn, sem er listaverk eftir Grétar Reynisson, væri horfinn af stalli sínum fyrir um tveimur vikum. Örninn er tréskúlptúr, um 50 kíló að þyngd, en hann fannst þá falinn í runna í nágrenninu.

Þá var ákveðið að festa Örninn enn betur við undirstöðurnar og var það gert með fjórum boltum. Óðinn segir ljóst að mikið átak hafi þurft til að fjarlægja fuglinn öðru sinni, en hann var horfinn nú eftir verslunarmannahelgina. 

Að þessu sinni finnst Örninn hins vegar ekki eins auðveldlega og síðast og geta þeir sem kunna að hafa upplýsingar um hvar Örninn er niðurkominn komið ábendingum til lögreglunnar á Austurlandi í síma 444 0600, netfangið austurland@logreglan.is eða í gegnum messenger á facebooksíðu Lögreglunnar á Austurlandi.

Fyrst var greint frá málinu hjá Austurfrétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert