„Stýrihópur verkefnis fundaði í morgun og fór yfir þessa stöðu sem okkur þykja ákveðin tíðindi,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. 17 kórónuveirusmit greindust innanlands síðasta sólarhring en um er að ræða flestu tilfellin á sólarhring í „seinni bylgjunni“ og hafa ekki fleiri smit greinst á einum degi frá 9. apríl.
Víðir segir að á fundi morgunsins hafi verið rætt hvort herða ætti aðgerðir og farið hafi verið yfir tilfelli sem greinst hafa undanfarna daga. „Við sjáum að það er ekki í neinu tilfelli þar sem nálægt 100 manns á einum stað tengjast þessum málum. Því höfum við ekki séð sérstaka ástæðu til að fækka þeim sem koma saman,“ segir Víðir en samkvæmt hertum reglum sem tóku gildi fyrir viku mega að hámarki 100 manns koma saman.
„Aftur á móti virðast öll þessi smit eiga það sameiginlegt að fólk hafi ekki virt tveggja metra regluna. Það eru nokkuð margir hópar í þessum rúmlega 100 sem eru í einangrun,“ segir Víðir.
Hann segir að staðfest tilfelli í gær séu mörg hver frá fólki sem fór ansi víða um síðustu helgi; verslunarmannahelgina og hitti marga. Hópurinn sem almannavarnir ræða við og er í, eða á leið í, sóttkví er ansi stór.
Spurður hvort hann telji að fólk hafi ekki tekið hertar aðgerðir nógu alvarlega segir Víðir að svo virðist vera.
„Við erum búin að sjá fullt af myndum frá síðustu helgi og vikunni þar sem fólk er að koma saman sem er ekkert með mikil tengsl og er að skemmta sér. Þar er ekkert verið að spá í einhverja tveggja metra reglu.“
Þrátt fyrir býsna mörg smit og áhyggjur af stöðunni vill Víðir ekki loka einhverjum stöðum enn sem komið er, líkt og gert var í vor í fyrstu bylgjunni.
„Við viljum frekar taka stöðuna með að herða umræðuna, sjá hvort við fáum ekki viðbrögð við þessu. Smitleiðin er fyrst og fremst að fólk er allt of þétt saman og er ekki að virða tvo metrana,“ segir Víðir og ítrekar að þetta snúist allt um þessar persónubundnu sóttvarnir.
„Kannski þurfum við að herða á aðgerðum til að fá fólk til að taka þetta meira alvarlega. Það virðist að fólk sé ekkert að taka þetta til sín þó við séum að tala um hertar aðgerðir. Við erum komin með eldri einstaklinga með smit og þá erum við komin inn í þessa viðkvæmu hópa sem við ætlum að verja.“