„Við áttum stuttar samræður um málefnið. Katrín var að vísu mjög hissa að sjá mig, þar sem ráðuneytið hafði greinilega farið á mis við tilkynninguna frá okkur. Samt tók hún sér smá tíma til að hlusta á það sem ég hafði að segja,“ segir Koen Kjartan Van de Putte, fulltrúi fyrirtækisins Bolt á Íslandi, sem fyrir hádegi hitti fyrir forsætisráðherra fyrir utan stjórnarráðið og afhenti um leið þúsund upprunaábyrgðir fyrir græna raforku.
Fyrirtækið sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku og vill vekja Íslendinga til umhugsunar um afleiðingar orkustefnu þeirra. Var aðgerðin endapunktur samfélagsmiðlaátaks Bolt í Belgíu, sem gengið hefur undir myllumerkinu #stopsjoemelstroom (eða #stoppumsvikaorku), en Bolt hét því að skila til Íslands 1.000 upprunaábyrgðarbréfum yrði herferðinni deilt þúsund sinnum.
Í samtali við mbl.is segir Koen Kjartan að hjá Bolt hafi enginn neitt sérstaklega á móti Íslandi hvað þetta varðar.
„Við notum það bara sem dæmi þar sem allir vita að Ísland er eyja og héðan liggur enginn kapall með rafmagn til Evrópu. Þess vegna er augljóst að raforka sem seld er í Evrópu með íslenskum upprunavottunum er eftir sem áður sama óhreina orkan.“
Bendir hann á að í Belgíu haldi fjölmargir, sem halda þar heimili, að þeir séu að kaupa græna raforku af fyrirtækjum þar í landi.
„Okkur finnst það ekki gott, og það er öllum ljóst sem vilja að þetta fyrirkomulag gengur ekki upp.“
Að hans sögn kostar eitt upprunaábyrgðarbréf um tuttugu evrusent, eða sem nemur rúmlega þrjátíu krónum.
„Og það þarf einungis þrjú svona bréf fyrir raforkufyrirtæki til að grænþvo orku fyrir eitt heimili í heilt ár. Samt borga heimilin miklum mun meira fyrir græna orku en þá venjulegu.“
Hann segist að lokum telja að almenningur sé ekki meðvitaður um þetta, hvorki í Belgíu né hér á Íslandi, hvað þá víðar í Evrópu ef því er að skipta.
„Af hverju ættu raforkufyrirtæki erlendis að vilja framleiða græna orku, ef þau geta bara keypt þennan miða, skellt honum á svörtu orkuna sína og þannig grænþvegið hana til viðskiptavina sinna, og selt hana mun dýrara verði?“