Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir því að Feneyjanefndin veiti umsögn um stjórnarskrártillögur sem unnið er að á vegum ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram á vefsíðu nefndarinnar.
Feneyjanefndin, sem starfar á vegum Evrópuráðsins, hefur það meginhlutverk að veita ríkjum lögfræðilegt álit sitt á lagafrumvörpum sem eru mikilvæg fyrir lýðræðislega virkni stofnana og styrkja þar með hin sameiginlegu evrópsku gildi stjórnskipunar.
Fram kemur í tilkynningu á vef nefndarinnar að hún hafi verið beðin að segja álit sitt á fernum drögum að stjórnarskártillögum. Þær fjalli um umhverfisvernd, um náttúruauðlindir, um þjóðaratkvæðagreiðslur og um framkvæmdarvaldið. Síðastnefndu drögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar og hafa þegar borist við þau 215 umsagnir frá einstaklingum og samtökum. Drögin fjalla um II. kafla stjórnarskrár Íslands og eru í 13 liðum. II. kafli stjórnarskrárinnar fjallar um forsetaembættið og framkvæmdarvaldið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.