Talað verði við ungt fólk, ekki um það

Una Hildardóttir.
Una Hildardóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Una Hildardóttir, formaður Landssambands ungmennafélaga, segir sambandið telja það ómögulegt að sigrast á faraldri kórónuveirunnar án þess að ungt fólk sé haft með í ráðum.

Una tók til máls á blaðamannafundi almannavarna og sagðist vilja minna fjölmiðla á að ungt fólk sé fjölbreyttur hópur. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir yfirlætislega umræðu um einstaka þjóðfélagshópa. Í því sé hlutverk fjölmiðla mikilvægt.

Ungt fólk hafi tekið á sig mikla ábyrgð, til að mynda með því að sjá um veika einstaklinga í kringum sig.

„Enginn veit neitt og við erum öll að gera okkar besta“

Hún segist hafa fundið fyrir því, eins og oft áður, að rætt sé einungis um ungt fólk en ekki við það, og litið sé á það nokkurn veginn eins og geimverur. Mikilvægt sé að halda samtali við ungt fólk, sem hafi sumt hvert einnig veikst í faraldrinum.

Hún segir sambandið hvetja unga sem aldna til að standa saman og sýna hvert öðru skilning.

„Enginn veit neitt og við erum öll að gera okkar besta,“ bætti hún við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert