Verða fyrir mjög þungu höggi

Minna verður um tónleikahald næstu vikur og mánuði.
Minna verður um tónleikahald næstu vikur og mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljóst er að menningar- og íþróttalíf hér á landi hefur orðið miklu höggi sökum faraldurs kórónuveiru. Fjölda viðburða hefur verið aflýst auk þess sem óvíst er hvernig veturinn kemur til með að þróast. Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri viðburða hjá Senu, segir að verið sé að gera fyrirtækjum í skemmtanaiðnaði gríðarlega erfitt fyrir. Þannig sé í raun ekki hægt að skipuleggja neina viðburði fram í tímann. 

„Það er gríðarlega erfitt að halda uppi menningarlífi í svona ástandi. Ef það er alltaf verið að draga úr og herða takmarkanir er ómögulegt að skipuleggja eitthvað. Það skiptir litlu hvað það er, það getur enginn haldið neinu gangandi,“ segir Ísleifur og bætir við að skortur sé á upplýsingum frá stjórnvöldum. Þá vanti skýrari stefnu til að hægt sé að skipuleggja tímann fram undan.

Íþróttir og menning „í klessu“

„Maður skilur alveg allar aðgerðir hingað til en ég held að Kári hafi orðað þetta best: Nú er komið að því að taka mjög sársaukafulla ákvörðun. Það virðist ekki bæði hægt að halda landinu opnu og vera án veiru. Ef landið er opið þýðir það að menning og íþróttir eru í klessu hér heima því þessi rússibanareið í takmörkunum, endalaust upp og niður, drepur á endanum allt. Þá er engum bjargað því ferðamannaiðnaðurinn fer væntanlega alveg jafn illa út úr því og aðrir.“

Fjölmörg afleidd störf tengd viðburðahaldi

Gríðarlegur fjöldi fólks byggir lífsviðurværi sitt á afleiddri starfsemi stórra menningarviðburða. Segir Ísleifur að bransinn í heild eigi mjög erfitt uppdráttar um þessar mundir.

„Það eru heilu greinarnar afleiddar af menningarstarfsemi. Þar er hægt að nefna ljósa-, hljóð- og uppsetningarfyrirtæki, auk fyrirtækja sem selja mat og drykk. Ed Sheeran-tónleikarnir einir og sér veltu tæplega einum milljarði, fyrir utan alls konar afleidd viðskipti. Auk þess eru fjölmargir verktakar sem lifa af þessum geira og svo eru listamennirnir sjálfir auðvitað meira og minna tekjulausir. Þeim mun lengur sem þetta ástand dregst þeim mun erfiðara verður að ráða við þetta. Þetta er því erfið ákvörðun fyrir stjórnvöld en hana verður að taka,“ segir Ísleifur og bendir á að án jólavertíðar muni listamenn eiga erfitt uppdráttar. Menningarlíf verði, þar til veiran er með öllu farin, að liggja í dvala.

Justin Bieber á sviði í Kórnum.
Justin Bieber á sviði í Kórnum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Menn eru að reyna að sjá til lands og ég veit að jólavertíðin gæti bjargað mörgum fyrir horn. Nú er allt í uppnámi enda getur enginn treyst því að halda viðburði í svona ástandi. Það getur allt verið komið í baklás með engum fyrirvara sem gerir það sömuleiðis ómögulegt að selja miða,“ segir Ísleifur sem tekur fram að listamenn lifi á tekjum viðburða. Tekjur af spilun laga á netinu séu ekki nægilega miklar til að hægt sé að lifa á þeim. 

Tónleikum Bocellis mögulega frestað

Eins og Morgunblaðið greindi fyrst frá í vor voru tónleikar ítalska tenórsins Andrea Bocellis færðir. Upphaflega áttu þeir að fara fram 23. maí í Kórnum, en haldist núverandi áætlun óbreytt eiga þeir að fara fram 3. október nk. Að sögn Ísleifs hefur engin ákvörðun verið tekin. Þó er ljóst að ekki verður hægt að halda stóra tónleika í núverandi ástandi.

„Við munum fara eftir öllum reglum og ekki taka neina sénsa Við erum að skoða allar sviðsmyndir fyrir alla okkar viðburði sem eru fram undan,“ segir Ísleifur sem viðurkennir að óvissan sé algjör.

„Óvissan er algjör með allt viðburðahald næstu mánuði hjá öllum og það sést ekki til lands eins og er. Við höfum síðan í mars frestað um 35 viðburðum og það gengur augljóslega ekki mikið lengur. Það er mikið fjallað um ferðamennsku en menningariðnaðurinn fær talsvert minni athygli, þótt hann fari jafnilla út úr þessu. Hann er ekki bara gríðarlega stór fyrir efnahagskerfið heldur afskaplega mikilvægur fyrir andlegt ástand þjóðarinnar. Nú er ekki hægt að taka neinar ákvarðanir fyrr en plan stjórnvalda er komið í ljós þannig að við sitjum og bíðum eins og aðrir eftir fréttum. Við trúðum því eins og flestir að við værum hægt og rólega á leið út úr takmörkunum en sú von er augljóslega úti.“

Frá vinstri: Viðar Brink og Ísleifur Þórhallsson.
Frá vinstri: Viðar Brink og Ísleifur Þórhallsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert