Dómstóll Skáksambands Íslands hefur áminnt skákmann fyrir að hafa með framkomu sinni á skákmóti, sem var hluti Brim-mótaraðarinnar, farið fram úr almennu velsæmi og sönnum íþróttaanda á skákstað.
Andstæðingur hans kærði manninn til dómstólsins og krafðist sex mánaða keppnisbanns en til vara að kærði fengi áminningu fyrir háttsemi sína. Hið síðarnefnda varð raunin.
Í skýrslu skákstjóra á mótinu er atburðarásin rakin. Maðurinn hafi mætt 4-5 mínútum of seint í 6. umferð skákmótsins, ekki heilsað andstæðingnum og því næst dregið taflborðið að sér. Andstæðingur hans, sem kærði hann, hafi síðar dregið það til baka en kærði dregið borðið til sín á ný. Þeir hafi síðar orðið ásáttir um að stöðva skákklukkuna á meðan skákstjóri kom taflborðinu fyrir á miðju borði.
Þá hafi skákstjórinn tekið eftir að maðurinn horfði ógnandi á andstæðing sinn og mennirnir hafi haft óvinsamleg orðaskipti. Í kjölfarið reiddist maðurinn og yfirgaf skákstað. Hann sneri aftur um tíu mínútum síðar, truflaði mótshaldið með háreysti og taldi á sér svindlað þar sem skákklukkan hefði ekki verið stöðvuð þegar hann yfirgaf salinn. Eftir að hafa horfið á braut á ný var honum vikið úr keppni.
Síðar um kvöldið hittust mennirnir tveir, að því er virðist af tilviljun, á göngu í Elliðaárdal og taldi kærandi að hann hefði ógnað sér þar. Dómurinn tók þó ekki afstöðu til þess hluta kærunnar þar sem talið var að sú atburðarás félli utan valdsviðs dómsins.