Sjö smituð – Virtu ekki heimkomusmitgát

Gömul mynd. Í dag stendur Ríkislögreglustjóri á skiltinu.
Gömul mynd. Í dag stendur Ríkislögreglustjóri á skiltinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sjö ferðamenn sem komu hingað til lands í þrettán manna hópi í vikunni virtu ekki heimkomusmitgát en reyndust síðar smitaðir af kórónuveirunni. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna.

Fólkið kom til landsins frá „öruggu ríki“, en ekki fást upplýsingar um hvert ríkið er. Fólkið hafði hins vegar dvalist í óöruggu ríki innan við 14 dögum fyrir komuna hingað til lands og átti því með réttu að fara í sýnatöku á landamærum. Þetta hafði fólkið ekki gefið upp á forskráningarformi sínu en það komst upp við stikkprufu sem landamæraverðir í Keflavík gerðu.

Regluverkið einfaldist mikið

„Þá var þeim vísað í sýnatöku á flugvellinum og gert að viðhafa heimkomusmitgát,“ segir Jóhann. „Svo þegar farið var að grennslast fyrir um hópinn kom í ljós að hluti virti ekki heimkomusmitgát.“ Embætti ríkislögreglustjóra þurfti því að hafa uppi á fólkinu, eins og greint var fyrst frá í kvöldfréttum RÚV.

Jóhann segir að fólkið hafi brugðist vel við því þegar haft var samband við það. Ekki liggi því fyrir hvort þetta hafi verið gert af gáleysi eða hvort fólkið hafi vísvitandi reynt að forðast sýnatöku og smitgát. Spurður hvort fyrirkomulagið sé svo óskýrt að ætla megi að fólk geri slík mistök, segir hann svo ekki vera. Reynt sé að skýra reglur út fyrir fólki með sem bestum hætti.

„En með þeim breytingum sem er verið að gera á miðvikudaginn einfaldast regluverkið þó mikið,“ segir Jóhann og vísar til þeirra breytinga að allir, sem komi til landsins, fari í tvöfalda sýnatöku með 4-6 daga sóttkví þess á milli en þær taka gildi á miðvikudag. 

Spurður hvort álag á lögreglu muni ekki aukast við breytingar á fyrirkomulaginu, ef hafa þarf eftirlit með að allir sem koma til landins hlíti sóttkví, segir Jóhann að ávallt hafi verið byggt á trausti til ferðamanna, hvort heldur íslenskra eða útlenskra, og það verði áfram gert. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert