Þjóðvegur opnaður og staðan endurmetin

Herðubreiðarlindir.
Herðubreiðarlindir. Ljósmynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra

Heldur hefur dregið úr rennsli í Jökulsá á Fjöllum og Kreppu frá því í nótt. Sameiginlegt rennsli ánna náði 600 rúmmetrum á sekúndu í nótt og var ákvörðun tekin um að rýma tjaldstæði í Herðubreiðarlindum um klukkan hálfeitt í nótt af ótta við að áin myndi flæða yfir bakka sína.

Þjóðvegi F88, frá hringveginum að þjóðvegi F910, var á sama tíma lokað, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra var hann opnaður að nýju í morgun eftir að dregið hafði úr vatnavöxtum.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að óvenjuhlýtt hafi verið í veðri undanfarna daga og leysingarvatn úr jökli því borist annars vegar úr Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga og hins vegar úr Kreppu en árnar tvær sameinast austan við Herðubreiðarlindir.

Náttúruvársérfræðingar funda með lögreglu og landvörðum úr Vatnajökulsþjóðgarði klukkan tvö í dag en þar verður tekin ákvörðun um framhaldið og hvort tilefni er til að opna tjaldstæðið að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert