Átta ný smit kórónuveirunnar greindust innanlands í gær, öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þetta kemur fram í tölum á covid.is. Engin smit eru staðfest úr landamæraskimun gærdagsins en beðið er niðurstaðna úr mótefnamælingum hjá fjórum.
Alls voru 347 sýni tekin hjá sýkla og veirufræðideildinni en 3.191 sýni á landamærum. Aldrei hafa fleiri sýni verið tekin á landamærum frá því landamæraskimun hófst 15. júní.
Nýgengi veirunnar, fjöldi nýrra smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, lækkar milli daga og mælist nú 27,8 (19,6 innanlands og 8,2 á landamærum).