Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir greiddi uppsett verð fyrir mat, drykk og aðgang að heitum pottum um síðustu helgi og naut engra sérkjara og er það mat skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu að hún hafi ekki gerst brotleg við siðareglur ráðherra. Þrátt fyrir það biðst hún afsökunar á að hafa ekki hagað gjörðum sínum þannig að þær væru hafnar yfir vafa.
Þetta ritar Þórdís Kolbrún á Facebook að gefnu tilefni.
„Vegna viðskiptasamstarfs einnar í hópnum bauðst hópnum frír aðgangur að heilsulind Hilton Nordica og gisting á hótelinu. Ég gisti hins vegar ekki og gerði hópnum frá upphafi ljóst að ég myndi borga allan minn kostnað og gerði það. Ég bað ekki um nein sérkjör, hvorki þarna né annars staðar, og greiddi uppsett verð fyrir allt.“
Óskaði Þórdís Kolbrún jafnframt eftir að skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu legði mat á hvort í þessu máli fælist brot á siðareglum ráðherra. Í áliti skrifstofu löggjafarmála segir að ekkert bendi til þess að ráðherra hafi þegið gjafir, boðsferðir eða afslætti frá Icelandair Hotels eða öðrum umrætt sinn.
„Ráðherra naut þannig hvorki persónulegra fríðinda í krafti embættis síns né vegna umrædds samstarfs. Þá getur ráðherra ekki borið ábyrgð á því að aðrir gestir samsætisins hafi þegið slík fríðindi gegn því að birta kynningarefni á samfélagsmiðli. Loks skiptir hér máli að myndir af ráðherra sjálfri voru ekki merktar sem auglýsing eða samstarf, heldur er um að ræða aðrar myndir sem teknar voru sama dag. Miðað við þær forsendur sem hér er gengið út frá má því ætla að ekki sé um brot á siðareglum ráðherra eða öðrum reglum að ræða,“ segir í álitinu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu biðst Þórdís Kolbrún afsökunar á að hafa ekki hagað aðgerðum sínum þannig að þær hafi verið hafnar yfir vafa og kveðst ætla að læra af atvikinu.