Hallur Már –
Orð sóttvarnalæknis um að núverandi fyrirkomulag á landamærum landsins gæti varað í langan tíma hafa vakið athygli. Innan ferðaþjónustunnar var gert ráð fyrir að endurskoðun innan skamms og þingmaður Sjálfstæðisflokks segir alveg ljóst slíkt gæti ekki orðið nema með lagabreytingum.
Orðin lét Þórólfur Guðnason falla í Kastljósþætti í gærkvöldi.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að annað hefði mátt ráða í orð forsætisráðherra þegar hertar reglur voru kynntar fyrir helgi. „Það er því gríðarlegt áfall, ofan í það sem fyrir er orðið, að sóttvarnalæknir lýsi því yfir nánast með annarri hendinni að þetta verði bara svona mánuði inn í framtíðina og nánast til næsta vors,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is. Viðvarandi lokun dýpki einungis kreppuna sem vofi yfir landinu og að sama skapi þau heilsufarsvandamál sem fylgi henni.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir alveg ljóst að slíkt fyrirkomulag til lengdar þyrfti að fara í gegnum þinglega meðferð. Jafnframt sé ljóst að halli ríkissjóðs sé það mikill að verulega þurfi að hagræða í opinberum rekstri á næsta ári ef ekki eigi illa að fara.
Í því samhengi nefnir hún laun opinberra starfsmanna, þar gæti orðið nauðsynlegt að skera niður um jafnvel tugi prósenta í flatri lækkun launa. „Það er eitt sem ég tel að þurfi að líta til til að stemma stigu við þessum halla sem nú þegar er orðinn á ríkissjóði og stefnir í. Og ég tala nú ekki um ef menn ætla sér að loka sig af hérna á þessari ágætu eyju okkar.“
Rætt er við Jóhannes Þór og Sigríði í myndskeiðinu.