Í undirbúningi eru breytingar á tilteknum ákvæðum sóttvarnalaga, og eru þær á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir næsta vetur. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á samráðsfundi um kórónuveirufaraldurinn, sem stendur yfir á Hótel Nordica.
Ráðherra fór ekki nánar út í eðli frumvarpsins eða hvaða ákvæðum yrði breytt, en nefndi í framhjáhlaupi að hún og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefðu áður rætt að í lögunum stæði allt um hvernig ætti að setja á hömlur en ekki hvernig ætti að losa þær.
„Ég held að það sjái það allir sem lesa sóttvarnalögin að þau eru býsna skýr og gefa miklar heimildir. Sóttvarnalæknir eigi að gefa tillögur um sóttkví, einangrun, samkomubann o.fl. og svo tekur ráðherra við því,“ sagði Svandís. Sagðist hún þó telja að engan hefði órað fyrir því, er lögin voru sett árið 1997, að við ættum eftir að glíma við faraldur af þessari stærðargráðu. Þá væri tilefni til að „tala aftur og aftur við þingið“ um þær ráðstafanir sem gripið er til, einkum þær sem breyta lífi fólks til lengri tíma.
Svandís sagði að ekki skyldi taka því af léttúð að hömlur væru settar á daglegt líf fólks, og þess vegna hefðu takmarkanir einungis verið settar á í skamman tíma í senn. „Það er grafalvarlegt að gera það og við erum að gera það með opin augu og að gefnu tilefni.“