Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samráð stjórnvalda við almenning bæði mikilvægt og nauðsynlegt til að stjórnvöld hafi sem gleggsta mynd af áhrifum sóttvarnaráðstafana á líf almennings.
Þetta sagði Svandís er hún setti samráðsfundinn Að lifa með veirunni sem stendur yfir á Hótel Nordica. Sagði hún að fundurinn í dag væri mikilvægur og markaði upphaf að frekara samráði sem hún byndi vonir við að geti orðið mikilvægt leiðarljós í þeim verkefnum sem fram undan eru.
„Það er mikilvægt að vita hvað er helst íþyngjandi fyrir einstaka hópa, hvernig það birtist og hvernig fólk sér fyrir sér veturinn í óbreyttu ástandi, hvort og hvað sé hægt að gera til að draga úr og lágmarka röskun á daglegu lífi fólks.“ Það samráð hæfist með þessum fundi.
Svandís sagði aðstæður einstaklinga ólíkar og það væru hagsmunir sömuleiðis. „Þær aðgerðir sem hefur þurft að grípa til koma ekki eins niður á öllum og þetta skapar hættu á togstreitu í samfélaginu, spennu og mögulegri óeiningu einmitt þegar ríður mest á að við náum að standa saman.“ Því sé mikilvægt að við gerum það sem hægt er til að sætta ólík sjónarmið.
„Það er mjög skiljanlegt að þau sem byggja afkomu sína á margvíslegri þjónustustarfsemi, en ekki síður á listsköpun og menningarstarfsemi, séu uggandi um sinn hag. Það er líka vel skiljanlegt að ungt fólk sem býr við skerta möguleika til náms og tómstunda eigi erfitt,“ sagði Svandís. Þá bæri einnig að nefna það fólk sem er viðkvæmt fyrir, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, aldraða, fólk með fötlun og þá sem þurfa í daglegu lífi á umönnun að halda. „Hér erum við líka að tala um fólk sem er í meiri hættu á að veikjast alvarlega, smitist það af veirunni. [...] Þetta er fólk sem býr nánast við aðstæður eins og það væri í sóttkví alltaf,“ sagði Svandís.
Samráðsfundur heilbrigðisráðherra fer nú fram á Hotel Nordica. Fundurinn hófst klukkan níu á örerindum Guðrúnar Johnsen hagfræðings, Henry Alexanders Henrysonar heimspekings, Steinunnar Gestsdóttur, aðstoðarrektors kennslumála og þróunar hjá Háskóla Íslands, og Unu Hildardóttur, forseta Landssambands ungmennafélaga. Ráðgert er að fundinum ljúki um klukkan eitt, eftir pallborðsumræður heilbrigðisráðherra og þríeykis almannavarna. Af sóttvarnaástæðum er gestafjöldi takmarkaður en almenningur getur tekið þátt í fundinum í gegnum heimasíðuna (eða appið) Sildo með kóðanum #65760.