Alþingi kemur saman á fimmtudag í komandi viku, í stubbnum svonefnda, en þar á að taka fyrir breytingar á fjármálastefnu ríkisins, auk frumvarps félagsmálaráðherra um hlutdeildarlánin, eins og um var rætt í lífskjarasamningunum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur þegar kynnt helstu línur breyttrar fjármálastefnu, sem felist í óbreyttum framlögum til málefnasviða og engum nýjum útgjöldum nema þeim sem tengist heimsfaraldrinum, en hann mun kynna nánari útfærslu í næstu viku.
Þrátt fyrir skamman tíma, frá 27. ágúst til 4. september, má einnig taka upp brýn mál tengd kórónuveirunni og afleiðingum hennar. Þingmenn sem Morgunblaðið ræddi við telja að einhverra slíkra mála megi vænta. Stjórnarandstaðan leggur mikla áherslu á að ríkisstjórnin þurfi að kynna frumvarp um hækkun atvinnuleysibóta og framlengingu launatengda tímabilsins, enda séu nú um 22.000 manns atvinnulaus. „Þessum efnahagsvanda heimilanna þarf að mæta núna strax,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.