Þoka hefur lagst yfir höfuðborgarsvæðið og má reikna með því að hún verði þar áfram í kvöld, nótt og annað kvöld, að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu.
„Sólin gæti náð að brjóta þetta upp í fyrramálið en annað kvöld má búast við að þokan nái sér inn aftur,“ segir hún. Þokan geri sjaldan boð á undan sér og því sé erfitt að spá fyrir um hana. Óvíst er hvort þokan verði viðloðandi við ströndina á morgun.
Von verður á einhverjum sólglennum í vikunni en á morgun verður aftur bjartviðri víða um land, einkum inn til landsins, en sums staðar þokubakkar við sjávarsíðuna. Á morgun birtir til á höfuðborgarsvæðinu, fyrst í efri byggðum, en yfir heildina litið heldur svalara í veðri.
Á þriðjudag og miðvikudag verður hæglætisveður á höfuðborgarsvæðinu og skin með köflum.