Smitrakning og raðgreining enn í gangi

Hótel Rangá.
Hótel Rangá. mbl.is/Sigurður Bogi

„Smitrakning er enn í gangi sem þýðir að það er enn verið að setja fólk í sóttkví og kanna hvort það séu einkenni til staðar. Sömuleiðis er raðgreining í gangi og verið að kanna hvaða veira þetta er sem berst á milli.“

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is spurður hvort hægt sé að segja til um fjölda kórónuveirusmita sem rekja má til Hótels Rangár og fjölda þeirra sem hafa þurft að fara í sóttkví fyrir vikið.

Uppruni smitanna sem komu þar upp er óljós og ekki vitað hvort það hafi verið gestur eða starfsmaður sem smitaði aðra. Ljóst er þó að smit sem tengjast hópsýkingunni teygja anga sína víða þar sem fjöldi fólks hefur þurft að fara í sóttkví vegna smita sem rekja má til hótelsins.

Níu ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru sendir í tvöfalda sýnatöku og heimasmitgát eftir að hafa snætt kvöldverð þar 18. ágúst. Þá hafa rúmlega 100 starfsmenn Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla verið sendir í sóttkví eftir að starfsmaður skólanna greindist smitaður sem og starfsmenn Barnaskólans í Reykjavík, sem telja á annan tug.

Að auki hafa rúmlega 30 starfsmenn Hins hússins verið sendir í sóttkví eftir að smit, sem rekja má til hópsmitsins á Hótel Rangá, greindist hjá starfsmanni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert