Aðstæður á bráðamóttöku aldrei verri

„Að mörgu leyti er miklu erfiðari aðstaða til að sinna …
„Að mörgu leyti er miklu erfiðari aðstaða til að sinna slösuðum og veikum í dag heldur en var fyrir COVID,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstæður á bráðamóttöku hafa aldrei verið verri, að sögn læknis sem þar starfar, sem telur að heilbrigðiskerfið hafi frekar veikst síðan smit kórónuveiru fóru að breiðast út hérlendis en styrkst, þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld hafi ætlað að styrkja heilbrigðiskerfið eftir fyrstu bylgju faraldursins svo það væri betur búið undir frekari átök við veiruna.

Læknirinn, Vilhjálmur Ari Arason, hefur áhyggjur af smithættu á biðstofum Landspítalans, þá sérstaklega á biðstofu bráðamóttöku sem er nú aðeins ein, í stað tveggja fyrir faraldur. Veikir og slasaðir, börn, fullorðnir og erlendir ferðamenn bíða þannig oft í litlu rými þar sem biðtími getur verið langur. Tilbúin COVID-legudeild er aftur á móti á efri hæðinni en af þeim sökum er þrengt að bráðamóttöku, að sögn Vilhjálms.

Tíu sjúkrarúm með tjöldum á milli

„Við erum í aðþrengdu húsnæði vegna þessa og við höfum ekki séð neitt til bóta fram undan. Að mörgu leyti er miklu erfiðari aðstaða til að sinna slösuðum og veikum í dag heldur en var fyrir COVID,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Tíu sjúkrarúm eru á bráðamóttöku og hanga einungis tjöld þeirra á milli. Í sjúkrarúmunum eru til dæmis framkvæmdar sáraaðgerðir, réttingar og gifsun brota en slíkt var framkvæmt í lokuðum rýmum áður.

„Rætt var um að það ætti að nýta tímann til þess að styrkja heilbrigðiskerfið til þess að takast á við vandann sem fylgir COVID en það eina sem ég sé að hafi verið gert er tilkoma COVID-19 göngudeildar. Aðstæður þar sem ég vinn á bráðamóttöku hafa aldrei verið verri gagnvart veiku og slösuðu fólki,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Ari Arason læknir situr í sóttvarnaráði fyrir hönd Læknafélags …
Vilhjálmur Ari Arason læknir situr í sóttvarnaráði fyrir hönd Læknafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Lítið samráð við fulltrúa heilbrigðisstétta

Vilhjálmur situr í sóttvarnaráði fyrir hönd Læknafélags Íslands og hefur áður lýst furðu sinni á því hversu lítið heilbrigðisráðherra, sem skipar fulltrúa fagfélaga heilbrigðisstétta í ráðið, hefur nýtt sér vettvanginn til samráðs. Síðasti fundur ráðsins var 15. júlí síðastliðinn og fékk ráðið ekkert að segja um breyttar reglur á landamærum sem tóku gildi um miðjan ágúst.

„Það er svolítið sérstakt vegna þess að það er svo mikið talað um samráð og ráðherra vísar í bak og fyrir í samráð en svo hefur hann aldrei samráð við sitt eigið ráð. Það er ekki hægt að segja að við séum mótandi í neinni stefnu,“ segir Vilhjálmur sem tekur fram að hann sýni sóttvarnalækni fullt traust.

„Það eru mjög stórar spurningar fram undan sem mér finnst að heilbrigðisstarfsfólk eigi að koma beint að því að svara. Ég er ekki að lýsa yfir neinu vantrausti á sóttvarnalækni. Hann vinnur sína vinnu eftir bestu samvisku. Þetta er bara svo risastórt mál að við verðum að vinna að farsælli lausnum til lengri tíma.“

Enn ekkert verið gert til að styrkja landsbyggðina

Vilhjálmur segir marga uggandi yfir því að niðurskurður verði í heilbrigðiskerfinu en varaformaður fjárlaganefndar sagði í grein í Morgunblaðinu í lok júlí að ólíklegt væri að aukið fjármagn yrði sett í rekstur Landspítala í ár. 

Vilhjálmur starfar einnig sem heimilislæknir á landsbyggðinni og hefur langa reynslu. Þá er hann með doktorsgráðu í vísindum sem snúa að faraldsfræði sýkla. Vilhjálmur segir að enn hafi heilbrigðiskerfi landsbyggðarinnar ekki verið styrkt vegna faraldursins.

„Það er ekkert búið að styrkja landsbyggðina gagnvart COVID, hvað sjúkraflutninga og annað varðar,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert