Ekkert bendir til þess að ferðamenn hafi brugðist betur við nýjum reglum á landamærum en ferðaþjónustuaðilar höfðu óttast. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir þurfa mikla bjartsýni til að ætla að sjá tækifæri í nýjum reglum fyrir ferðaþjónustuna. Á annan tug farþegaflugvéla komu til landsins í gær, en hann segir engar vísbendingar um að mikill fjöldi ferðamanna sé tilbúinn að sæta sóttkví.
„Það eru engar vísbendingar um það. Þvert á móti hafa þessar vélar sem hafa komið ekki verið mikið bókaðar. Auðvitað eru alltaf einhverjir, til dæmis Íslendingar á leið heim og sjálfsagt eru einhverjir ferðamenn, ég útiloka það ekki, en það eru engar vísbendingar um að þetta fari eitthvað betur ofan í ferðamenn en við héldum,“ segir hann.
„Þegar líður svo á haustið styttist dvalartími ferðamanna almennt svo það verður enn minna svigrúm til að sitja í sóttkví á ferðalagi. Það þarf gríðarlega jákvæðan mann til að sjá tækifæri í þessu fyrir ferðaþjónustuna. Það er öllu snúið á haus, ef þetta er orðið að einhverju tækifæri.“
Í dag hefur Icelandair aflýst þremur flugferðum félagsins frá Íslandi af níu. Alls fara 15 vélar frá Íslandi í dag en í gær voru þær 16 talsins. Yfirleitt hefur 2-4 flugferðum verið aflýst héðan frá landi á dag frá því reglum var breytt á landamærunum. Farþegar sem koma til Íslands frá og með 19. ágúst geta valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Frá þeim tíma hafa verið greind 7 virk smit á landamærunum.