Forstjórinn bauð dómsmálaráðherra far

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki var um aukakostnað, aukna fyrirhöfn né skerta viðbragðsgetu að ræða þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra úr hestaferð á Suðurlandi síðasta fimmtudag á fund og aftur til baka.

Þetta kemur fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar vegna málsins en Stundin greindi frá þyrluflutningi ráðherra í gær.

„Miðvikudaginn 19. ágúst fékk Landhelgisgæslan upplýsingar frá  jarðvísindamönnum um að kanna þyrfti hvort hlaup hefði orðið í Svartá við Langjökul. Óskað var eftir því að Landhelgisgæslan færi og kannaði svæðið en það reyndist ekki unnt vegna skýjafars yfir jöklinum á miðvikudegi. Var þá ákveðið að flugið yrði á fimmtudegi. Í aðdragandanum hafði Landhelgisgæslan flogið með sérfræðinga vegna hugsanlegra umbrota í Vatnajökli og allar líkur á að áframhald yrði á,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar vegna málsins.

Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.
Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Þar segir enn fremur að í símtali forstjóra Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðherra hafi málið borið á góma og að um væri að ræða allnokkur flug vegna jarðhræringa og hugsanlegra eldsumbrota.

„Bauð forstjórinn dómsmálaráðherra ferð með þyrlunni enda lá fyrir að áhöfnin þyrfti að sinna umræddu verkefni,“ segir í tilkynningunni. Ekki var um aukakostnað né aukna fyrirhöfn eða skerta viðbragðsgetu að ræða þar sem þyrlan var fullmönnuð til útkalls.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, gagnrýnir á Facebook ákvörðun Áslaugar Örnu um að fá far með þyrlu Landhelgisgæslunnar. „Eitt er að starfsmenn og forstjóri Landhelgisgæslunnar sjái ekki eitthvað athugavert við að bjóða dómsmálaráðherra skutl fram og tilbaka í reiðtúr, en að ráðherra finnist það fullkomlega eðlilegt er grafalvarlegt. Fyrirgefið þið en mér finnst þetta vera óboðlegt bruðl með öryggistæki almennings og með almannafé,“ skrifar Rósa Björk í opinni færslu á Facebook í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka