Hamfarir í ferðaþjónustu

Mörg hótel hafa verið byggð á Íslandi á síðustu árum.
Mörg hótel hafa verið byggð á Íslandi á síðustu árum. mbl.is/Árni Sæberg

Samdráttur í veltu erlendra greiðslukorta í gistiþjónustu nam fimmtánföldum vexti í veltu innlendra korta í gistiþjónustu fyrstu sjö mánuði ársins.

Velta innlendra greiðslukorta í gistiþjónustu jókst um 1,5 milljarða króna fyrstu sjö mánuði ársins, þrátt fyrir samkomubann í vor. Skýringin er því að líkindum aukin ferðalög innanlands.

Það dugar þó skammt fyrir hótelhaldara, en erlenda kortaveltan hefur dregist saman um 22,6 milljarða í gistiþjónustu.

Að sama skapi hefur veitingageirinn orðið fyrir gífurlegu höggi. Velta erlendra korta hefur þar dregist saman um 10,5 milljarða og velta innlendra korta um ríflega 930 milljónir.

Þessar tölur eru sóttar í greiningu Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV). Niðurstöðurnar endurspegla mikinn samdrátt í eftirspurn erlendra ferðamanna eftir að kórónuveirufaraldurinn nánast lokaði landinu. 

Samdrátturinn án fordæma

Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, segir samdráttinn í þjónustu í vor vera án fordæma. Vegna veirunnar hafi til dæmis þurft að loka snyrti- og hárgreiðslustofum.

„Það var skörp niðursveifla í öllum flokkum þjónustu þegar faraldurinn skall á. Hann var hins vegar tímabundinn í öðrum greinum en ferðaþjónustu,“ segir Árni Sverrir og víkur að annarri bylgju faraldursins.

„Samdrátturinn verður sennilega ekki jafn skarpur en spurningin er hversu langvinnur hann verður. Ég myndi ætla að þjónustan jafni sig almennt hraðar en ferðaþjónustan. Það er enda meiri árstíðasveifla í ferðaþjónustunni.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert