Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir í samtali við Morgunblaðið að Íslendingar séu með góð sambönd þegar kemur að kaupum á bóluefnum við kórónuveirunni. Hún segir erfitt að spá fyrir um það nákvæmlega hvenær bóluefni fái markaðsleyfi í Evrópu, og þar með á Íslandi. Útlitið sé þó bjartara en talið var í fyrstu. Nokkur bóluefni eru þegar komin á lokastig prófana og segir Kamilla að hún sé vongóð um að árangur náist fljótt.
„Við erum aðilar að forkaupsréttarsamningi við Dani og höfum gert aðra samninga um kaup á heimsfaraldursbóluefni við önnur lönd á Norðurlöndunum. Hin Norðurlöndin hafa svipaða áherslu og við þegar kemur að faraldsfræði og þess vegna er gott að vera í samstarfi við þau.“
Kamilla segir að Ísland hafi ekki tekið þátt í rannsóknarsamstarfi eða þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni með beinum hætti. Íslenska ríkið tók samt þátt með óbeinum hætti þegar það varði hálfum milljarði íslenskra króna í alþjóðlegt rannsóknarsamstarf um bóluefni gegn farsóttum, eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti í byrjun júní.
Kamilla segir jafnframt að þrátt fyrir að útlitið sé bjart hafi enn ekkert bóluefni hlotið markaðsleyfi. Strangar reglur gilda um það hvenær bóluefni fá markaðsleyfi og tekur það jafnan fleiri ár. Hún segir þó líklegt að einhvers konar flýtimeðferð verði beitt af hálfu evrópsku lyfjastofnunarinnar, vegna þess hve þungt kórónuveirufaraldurinn hefur lagst á heimsbyggðina.
„Markaðsleyfið mun að öllum líkindum hljóta einhvers konar flýtimeðferð hjá evrópsku lyfjastofnuninni en samt sem áður verður að fara varlega. Ganga þarf úr skugga um hvort mótefni sem tekst að þróa nái í raun og veru að verja bólusetta fyrir veirunni og hvort einhverjar aukaverkanir séu af lyfinu og hversu miklar þær eru. Þetta gengur vel en það er gríðarlega varasamt að setja lyf á markað sem ekki hefur verið prófað nægilega.“
Spurð hvort dánartíðni vegna veirunnar fari lækkandi svarar Kamilla því játandi. „Eitthvað höfum við séð um að dánartíðni fari lækkandi en það þýðir ekki að veiran sé minna banvæn. Líklega er það vegna þess að yngra fólk hefur verið að smitast í mun meira mæli undanfarið og þess vegna sé minna um dauðsföll. Minna er af undirliggjandi sjúkdómum hjá ungu fólki og því er líklegra að þeir sjúklingar nái sér hraðar og oftar.“
Kamilla segir enn fremur að heilbrigðiskerfi landa heimsins séu orðin betri í að mæta þeim áskorunum sem upp koma vegna kórónuveirunnar.
„Læknar og hjúkrunarfræðingar á gjörgæslum spítala hafa nú meiri reynslu, þekkingu og svigrúm til þess að vinna bug á veirunni. Við sáum það í upphafi faraldursins á Spáni og sérstaklega Ítalíu að starfsmenn sjúkrahúsa þurftu einfaldlega að velja og hafna hver fengi inni á gjörgæslu og hver ekki. Fólk var þannig með óbeinum hætti að velja hverjir dæju og hverjir kæmust lífs af. Við erum bara eðlilega betur í stakk búin til þess að takast á við veikindi fólks vegna COVID-19 en við vorum í fyrstu. Þá deyja auðvitað færri sem betur fer.“
Leikskólum er heimilt að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að starfsfólk sem á erindi inn í byggingar gæti að minnst eins metra nálægðartakmörkun sín á milli án þess að andlitsgrímur séu notaðar.
Fimm kórónuveirusmit greindust á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans á mánudag. Fjögur smit greindust við landamærin en mótefnamælingar er beðið í þeim öllum.