Gert er ráð fyrir því að skuldir hins opinbera hækki að nafnvirði um 850 milljarða á árunum 2019 til 2022.
Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar sem liggur til grundvallar tillögu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á fjármálastefnu.
Þessu greindi Bjarni frá á Alþingi fyrr í dag. Gert er ráð fyrir því að skuldir hins opinbera hækki úr tæpum 28% af vergri landsframleiðslu árið 2019 og verði yfir 50% í árslok 2022.
Samkvæmt svartsýnni sviðsmynd er gert ráð fyrir því að stór bylgja faraldurs kórónuveirunnar komi upp snemma árs 2021 og gripið verði til harðra sóttvarnaaðgerða hérlendis og í öðrum löndum. Fjöldi erlendra ferðamanna verði fyrir vikið 80% minni en ella í hálft ár.
Bjarni sagði útlit fyrir að í ár verði mesti efnahagssamdráttur í heiminum á einu ári frá árinu 1920 og að allar meginforsendur núgildandi fjármálastefnu hafi brostið. Þetta leiði af sér gríðarlegt framleiðslutap og efnahagsslaka.
„Faraldurinn hefur haft í för með sér gríðarlegar búsifjar, ekki síst í ferðaþjónustu,“ sagði hann og bætti við að aldrei áður í hagsögu Íslands hafi opinberum fjármálum verið beitt af jafnmiklum krafti til að vega á móti hagsveiflum.
Hann sagði óráðlegt af hinu opinbera að auka skattlagningu eða draga úr umsvifum. „Við eigum engan annan valkost en að sækja fram, skapa meiri verðmæti, framleiða, auka skilvirkni og stækka þjóðarkökuna,“ sagði hann.