„Aðstaða sjúklingahóps sem leitar á bráðamóttöku með minni háttar slys og minni háttar veikindi, er því miður ekki jafngóð og hún var áður og ekki eins góð og við myndum vilja hafa hana,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Jón segir að hliðarverkan ráðstafana vegna Covid-19-sjúklinga sé að fleiri þurfi að bíða á biðstofu bráðamóttökunnar en áður. „En við reynum að fyrirbyggja smit á deildinni með því að gæta þess að allir spritti hendur og noti grímur við komu,“ segir Jón.
Tekin var ákvörðun um að þeir sem ættu við alvarlegri veikindi að etja hefðu forgang inn á einbýli deildarinnar, til þess að forðast smithættu.
„Þetta var gert með hag sjúklinga og smithættu í huga, þannig að tryggt væri að einstaklingar sem þurfa að leggjast inn með öndunarfæraeinkenni yrðu í einbýli en ekki opnu rými,“ segir Jón.
Aðspurður segir hann að óljóst sé að hvaða leyti heilbrigðisyfirvöld áformuðu að styrkja heilbrigðiskerfið vegna faraldursins og þá sérstaklega heilsugæslu utan höfuðborgarsvæðisins.
Beðið er eftir því að göngudeild og endurkomudeild bæklunarlækna flytji út úr húsnæði bráðamóttökunnar. „Þegar því er lokið er von á að þessi starfsemi muni fara í betri aðstæður,“ segir hann, en unnið sé nú að endurskipulagningu göngudeilda Landspítalans.