Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir ekki hægt að kenna kórónuveirunni um öll fjárhagsleg vandræði borgarinnar.
Sex mánaða árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar var afgreitt í borgarráði í dag. Þar kom fram að milljarða tap hafi orðið á rekstri borgarinnar.
„Ekki er hægt skrifa öll fjárhagsvandræði borgarinnar á heimsfaraldurinn eins og borgarstjóri gerir. Ríkið nýtti uppsveiflu síðustu ára til að greiða skuldir verulega niður, en á sama tíma hefur borgin aukið skuldir sínar um meira en milljarð á mánuði öll síðustu ár þrátt fyrir einstakt góðæri,“ segir Eyþór í tilkynningu.
„Kostnaður vex þrátt fyrir að við blasi mikill samdráttur í tekjum borgarinnar. Nauðsynlegt er að endurskoða fjárhagsáætlun borgarinnar miðað við þessa stöðu,“ segir hann.
Eyþór bendir á að útgjöld borgarinnar haldi áfram að vaxa og skuldasöfnun hafi aukist um 33 milljarða á aðeins sex mánuðum. „Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar komnar í 378 milljarða í júnílok. Launakostnaður hækkar um 9% milli ára.“
Hann segir versnandi stöðu dótturfyrirtækja vekja athygli . „Afkoma OR versnar um -127% milli ára og fer úr hagnaði í tap. Afkoma SORPU versnar um -90% frá áætlun og rekstrarniðurstaða Félagsbústaða hf. versnar um -98% frá áætlun. Endurmat fasteigna Félagsbústaða hf. mun duga skammt til að bæta stöðuna,“ segir hann í tilkynningunni.