Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að markmið stjórnvalda hafi tekið breytingum eftir því sem þau öðlast betri þekkingu á kórónuveirunni sem veldur faraldrinum sem nú gengur yfir. Leiðarljósið hafi þó verið að verja líf og heilsu fólks og lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Stjórnvöld standi frammi fyrir flóknum valkostum eftir að smitum tók aftur að fjölga.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði ráðherra hvort ríkisstjórnin hefði sett sér markmið þannig að það liggi fyrir með hvaða hætti tekið yrði á núverandi ástandi svo almenningur og fyrirtæki í landinu gætu gert áætlanir.
„Þegar menn vita ekki að hverju er stefnt þá er hver einasti dagur óvissudagur og hver einasta tilkynning frá ríkisstjórninni til þess fallin að, í rauninni, að viðhalda óvissunni,“ sagði Sigmundur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Þegar háttvirtur þingmaður kallar eftir markmiðum í sóttvarnaráðstöfunum þá er það óbreytt og verið hefur frá upphafi. Það er að segja að forgangsraða líf og heilsu, en hins vegar erum við að sjá ákveðnar breytingar frá fyrstu bylgju til þeirrar næstu,“ sagði Katrín.
Sigmundur Davíð tók þá til máls og sagði að hann hefði ekki verið að biðja um sögulegt yfirlit heldur einhverjar upplýsingar um hvert stjórnvöld stefni núna miðað við það ástand sem sé til staðar.
„Geta stjórnvöld ekki veitt almenningi meiri upplýsingar um hvert er stefnt og ef að ákveðnum áföngum er náð þá gerist tilteknir hlutir. Því ef að ætlunin er sú að loka alveg landinu þar til t.d. bóluefni finnst, og það má færa rök fyrir því líka, þá muni fyrirtæki og almenningur gera aðrar ráðstafanir en ef að ætlunin er einhver önnur,“ sagði Sigmundur.
Katrín sagði að Sigmundur væri í fyrirspurn sinni að koma inn á þær aðgerðir sem eru í gangi á landamærum Íslands. „Ég viðurkenni það að ég hef ekki alveg áttað mig ennþá á afstöðu háttvirts þingmanns til þeirra aðgerða. Þótt ég hafi hlustað mjög vandlega á hann hér á umræðum í gær.“
Hún segir að aðgerðirnar séu fyrst og fremst rökstuddar með því að við séum annars vegar að sjá hér innlandssmit sem við höfum ekki náð tökum á sem allar líkur bendi til þess að hafi komið í gegnum landamærin. Þá sjái menn einnig fjölgun virkra smita á landamærum. Það megi beinlínis rekja til þess að faraldurinn hafi verið í vexti í heiminum.
„Það kallar á mjög harðar sóttvarnaráðstafanir hér innanlands. Þá standa stjórnvöld frammi fyrir því vali hvort viljum við reyna að slaka þá á ráðstöfunum hér innanlands og herða á landamærum. Eða halda áfram hinum hörðu sóttvarnaráðstöfunum innanlands,“ sagði Katrín og bætti við að þetta væri ekki einfalt val.
Hún sagði ennfremur að það væri mikilvægt að ræða forgangsröðun stjórnmálaflokkanna á Alþingi þegar horft væri til þessara flóknu valkosta.