„Borgarlína er barn síns tíma; hefði verið ágæt fyrir þrjátíu árum fyrir milljónaborgir en ekki stórt þorp eins og Reykjavík. Borgarlínan er eins og fegurðarsamkeppni, úrelt fyrirbæri. Framtíðin felst í rafmagnsskutlum, bílstjóralausum bílum, sem koma átta til sextán manns hratt og örugglega um þröngar götur í miðborgum. Allar borgir eru að fjárfesta í þessu. Þar á eftir fáum við flugbíla og þurfum hvorki spor né teina lengur. Ég óttast að Borgarlínan sé bara óútfylltur víxill sem falla mun á ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þau gætu öll farið í gjaldþrot, held ég. Þetta er skelfileg óstjórn og erfitt að horfa upp á þetta.“
Þetta er skoðun Dóru Einarsdóttur búningahönnuðar en hún er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Rétta leiðin, að dómi Dóru, er að fá skipulagsfræðinga sem fyrsta póst, síðan verkfræðinga og eftir það koma hönnuðir að borðinu. „Skipulagsfræði byggist á félagsfræði, samgöngutækni, hagfræði og mörgu öðru. Hér ráða menn bara strax hönnuð, vin sinn, og aðrir virðast ekkert hafa um málið að segja. Þetta nær engri átt. Hér fá menn bara einhver pungapróf en hafa í reynd hvorki þekkingu né getu til að vinna risaverkefni af þessu tagi. Þetta getur ekki annað en endað með ósköpum.“
Dóra tekur skýrt fram að hún hafi aldrei verið í neinum stjórnmálaflokki og hvorki þegið laun né bitlinga frá þeim. „Ég á hins vegar vini í öllum flokkum og ber virðingu fyrir öllum skoðunum, jafnvel þótt ég sé þeim ósammála. Heiftin í hinni pólitísku umræðu getur verið skelfileg og ég á mjög erfitt með að höndla illmælgi. Við erum að kafna í smákóngum sem hafa tekið sér vald sem þeir hafa engan rétt á. Maður á að virða skoðanir annarra, hvort sem það er í pólitík, klæðaburði, lífsstíl eða öðru. Allir hafa jafnan rétt á að lifa.“