Stjórnvöld hér á landi hafa seilst of langt í aðgerðum sínum gegn kórónuveirunni að undanförnu, að mati Jóns Ívars Einarssonar, prófessors við læknadeild Harvard-háskóla.
Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Jón að ákvarðanir yfirvalda hafi verið skynsamlegar framan af og meðalhófs gætt. Sú kúvending sem gerð var 14. ágúst með því að setja fólk í 5-6 daga sóttkví við komuna til landsins samfara því að halda áfram með tvær skimanir sé umhugsunarverð enda sé vandmeðfarið að þrengja að frelsi borgaranna með þessum hætti.
Að mati Jóns hefði verið skynsamlegra að setja alla í tvöfalda skimun en jafnframt halda áfram með heimkomusmitgát á milli sýna. Þetta hefði í för með sér mun minni röskun á komum ferðamanna til landsins og myndi minnka þann skaða sem ferðaþjónustan og fleiri aðilar verða nú fyrir.