Einhverjir Sjálfstæðismenn hafa kallað eftir því að aðgerðir á landamærum vegna COVID-19 verði skoðaðar betur og hvort nauðsynlegt hafi verið að „ganga svo langt“, að sögn Brynjars Níelssonar þingmanns flokksins sem telur þó alls ekki að óeining sé innan flokksins vegna aðgerðanna.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnvöld séu í þeirri óöfundsverðu stöðu að ekki séu til nein gögn til að styðjast við þegar ákvarðanir eru teknar um aðgerðir til að takmarka útbreiðslu faraldursins. Páll segir þó að alltaf þurfi að fara varlega þegar grundvallarrétttindi einstaklinga séu í húfi.
Fyrir um tíu dögum tóku gildi reglur á landamærunum sem kveða á um að allir sem hingað koma þurfi að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þrír hafa greinst smitaðir í seinni skimun síðan aðgerðirnar tóku gildi og er það þrisvar sinnum meira en búist var við.
„Þessi litla reynsla sem við höfum af seinni skimun bendir til þess að hún sé bráðnauðsynleg. Þetta er náttúrlega afskaplega lítil reynsla en það verður líka að skoða þetta allt í ljósi þess að þessi veira er að koma af stað nýrri bylgju í löndunum í kringum okkur,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is fyrr í dag.
„Menn hafa komið með vangaveltur um það hvort þetta gangi upp og hvort þetta hafi verið skoðað áður en þessar ákvarðanir voru teknar. Það er bara eins og gengur í þessum bransa,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.
Spurður hvar hann standi í þeim efnum segist Brynjar ekki hafa neina fullmótaða skoðun á því eða lausnir.
„Ég er eins og alltaf röngum megin í tilverunni. Ég hef haft mínar efasemdir um að allar þessar ákvarðanir sem við tökum gangi upp og velti því fyrir mér hvort þær séu frekar til hins verra en til góðs.“
Páll telur að í öllum aðalatriðum hafi stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld tekið réttar ákvarðanir hvað varðar viðbrögð við COVID-19.
„Ýmsir eru þeirrar skoðunar að í þessum síðustu lokunum hafi menn gengið skrefinu of langt en ég tel mig hreinlega ekki dómbæran á það. Ég tel að menn þurfi að stíga skref sem skerða stjórnarskrárvarið frelsi einstaklingsins afar varlega. Hvort þetta sé nákvæmlega rétt stillt tel ég mig ekki dómbæran um.“
Ef það komi í ljós að of langt hafi verið gengið með tvöfaldri skimun á landamærum og fimm daga sóttkví á milli segir Páll að stíga þurfi aftur til baka.
„Málið er einfaldlega þess eðlis að menn eru að stíga skref í þessu fram og til baka á hverjum degi vegna þess að þeir hafa enga reynslu til að styðjast við. Það er verið að takast á við hluti sem menn hafa ekki tekist á við áður og það verður að virða þeim það til vorkunnar sem þurfa að taka ákvarðanir í þessu að það er ekki við neitt að styðjast. Það er engin sú reynsla til sem getur kveðið á um það hvort þessar ákvarðanir séu nákvæmlega réttar eða rangar.“